Lög félagsins

  1. Nafn félagsins er Félagsfræðingafélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
  2. Tilgangur félagsins er að efla fræðilega umræðu meðal félagsmanna; hafa áhrif á almenna umræðu um þjóðfélagsmál og standa að ráðstefnum og fyrirlestrum um félagsfræðileg málefni. Félagið stendur jafnframt að útgáfu fagtímarits samkvæmt samningi þar að lútandi.
  3. Félagsmenn eru þeir sem lokið hafa háskólaprófi í félagsfræði eða skyldum greinum, skráð sig í félagið og greitt félagsgjald.
  4. Stjórnin boðar til félagsfundar þegar hún telur þörf á eða 5 félagsmenn óska þess. Boðað skal til fundar skriflega með viku fyrirvara.
  5. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Skal hann haldinn í janúar eða febrúar ár hvert. Aðalfund skal boða með auglýsingu í fjölmiðlum, pósti eða tölvupósti til félagsmanna með viku fyrirvara hið minnsta. Með fundarboði skulu fylgja fram komnar tillögur um lagabreytingar. Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:
    1. Skýrsla fráfarandi stjórnar.
    2. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
    3. Lagabreytingar.
    4. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
    5. Kosning fulltrúa í Samband norrænna félagsfræðinga.
    6. Félagsgjald.
    7. Önnur mál.
  6. Stjórn félagsins skipa fimm menn: Formaður, ritari gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Stjórn og þriggja til sex manna varastjórn skal kosin til eins ár á aðalfundi félagsins. Formaður skal kjörinn sérstaklega á aðalfundi, en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum. Fulltrúar félagsins í Sambandi norrænna félagsfræðinga skulu kosnir á aðalfundi og starfa frá 1. júní ár hvert til 31. maí ári síðar.
  7. Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum sem lög þess setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess. Fyrir meiriháttar fjárhagslegum skuldbindingum þarf samþykki félagsfundar. Gerðir stjórnar skulu bókaðar.
  8. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
  9. Félagið er aðili að Samtökum norrænna félagsfræðinga og annast öll samskipti við þau félög samkvæmt reglum þar að lútandi.  
  10. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Til lagabreytinga þarf 2/3 greiddra atkvæða. 

Lögum félagsins var síðast breytt á aðalfundi þann. 17. febrúar 2017.