Nám í félagsfræði

Við sem komum nálægt kennslu félagsfræðinnar erum oft spurð hver sé gagnsemi greinarinnar og hvað félagsfræðingar geri. Hérna á eftir verður varpað ljósi á þessar áleitnu spurningar. Í hverju felst mikilvægi félagsfræðinnar? Hvað fara félagsfræðingar að gera þegar námi þeirra lýkur? Er nokkur þörf á þessu námi?

Mikilvægi félagsfræðinnar

Markmiðið með kennslu í félagsfræði er ekki bara að efla þekkingu og skilning nemenda á greininni sjálfri heldur er einnig mikilvægt að kunnátta í henni nýtist á margvíslegan hátt í daglegur lífi, hvort heldur í starfi eða leik. Viðfangsefni félagsfræðinnar endurspegla mörg brýn verkefni nútímasamfélags og spanna í raun mjög fjölbreytt svið. Sem dæmi má nefna málefni afbrota, fjölmiðla, ungmenna og atvinnu- og velferðarmál af ýmsu tagi. Félagsfræðin veitir nemendum þjálfun og færni í öflun og meðferð margvíslegra upplýsinga sem eru kostir sem mikil þörf er á í upplýsinga- og þjónustusamfélagi nútímans. Hagnýting gagna er ómissandi þáttur í samfélaginu og félagsfræðin veitir nemendum færni í myndrænni framsetningu og þjálfun í að túlka þau. Að auki felur áhersla félagsfræðinnar á sjálfstæð vinnubrögð, frumkvæði nemenda, auk tjáningarhæfileika og samskiptahæfni, í sér mikilvæga og eftirsótta eiginleika á síbreytilegum vinnumarkaði.

Hvað gera félagsfræðingar?

Áhersla hefur lengi verið lögð á að skoða mikilvægi menntunar í ljósi þess hvort hún tryggi góða atvinnu og afkomu. Þetta kemur ekki á óvart og oft er spurt hvað félagsfræðingar fari að gera að loknu námi. Til að ganga úr skugga um þetta var unnin B.A. ritgerð í félagsfræði undir minni handleiðslu þar sem kannað var hvað nemendur sem lokið höfðu félagsfræðinámi frá Háskóla Íslands hefðu tekið sér fyrir hendur að loknu námi. Kolbrún Ósk Hrafnsdóttir gerði rannsóknina og kom í ljós að vel á fjórða hundrað nemenda hafði lokið námi í félagsfræði frá því að nám í greininni hófst við HÍ snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Ýmislegt fróðlegt kom fram en um 90 prósent útskrifaðra tóku þátt í athuguninni. Um 64 prósent þeirra höfðu stundað frekara háskólanám, svipað hlutfall karla og kvenna. Af þeim hafði helmingur karlanna lokið meistaragráðu en sambærilegt hlutfall meðal kvenna var um 20 prósent. Tuttugu höfðu lokið doktorsgráðu, 17 karlar og þrjár konur. Meðal kvennanna var eins árs viðbótarnám í félagsráðgjöf algengast. Afgerandi meirihluti þeirra sem var í launavinnu starfaði við ýmsar þjónustugreinar, einkum fræðslu, opinbera stjórnsýslu, félagsþjónustu, tómstunda-, menningar- og íþróttastarfsemi. Aðrar áberandi þjónustugreinar voru verslunarstörf, fjármála- og tryggingastarfsemi, rannsóknir og ráðgjöf og önnur ótalin viðskipti og þjónusta. Rúmur helmingur svarenda tilheyrði stétt sérfræðinga, um fjórðungur stétt æðstu embættismanna og stjórnenda og um 15 prósent starfandi svarenda tilheyrðu stétt tækna og sérmenntaðs starfsfólks. Atvinnuþátttaka var mjög almenn og enginn svarenda sagðist atvinnulaus. Stundum er því fleygt að félagsfræðin nýtist mest hjá hinu opinbera en ekki á einkamarkaði. Það sem kom í ljós var að rúmlega 60 prósent störfuðu hjá ríki og sveitafélögum en tæp 40 prósent á almennum vinnumarkaði.

Niðurlag

Í heildina sýnir rannsóknin á afdrifum útskrifaðra nemenda í félagsfræði að verkefni þeirra að námi loknu eru bæði fjölbreytt og spennandi. Námið hefur sýnt sig að vera hagnýtt og þörfin fyrir sérmenntað starfsfólk með félagsfræðimenntun óneitanlega fyrir hendi enda teljast um 70 prósent allra starfa á vinnumarkaðnum á Íslandi til þjónustu. Við sem komum nálægt félagsfræðinni getum því óhikað litið björtum augum á framtíð greinarinnar í íslensku samfélagi.

Helgi Gunnlaugsson prófessor við Háskóla Íslands