Kynferðisofbeldi gegn unglingum eykst

      Comments Off on Kynferðisofbeldi gegn unglingum eykst

Frétt af ruv.is

Alls hafa 14,6% íslenskra unglinga í 10. bekk orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni af einhverju tagi. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsókna Ársæls Más Arnarssonar, Kristínar Hebu Gísladóttur og Stefáns Hrafns Jónssonar sem birtar er í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Athygli vekur að tveir þriðju hlutar þessa hóps hafa ítrekað orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni. Um 1% þátttakenda sagðist mjög oft hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eða áreitni og upplifað allar tegundir slíks. Þá leiðir rannsóknin í ljós að tæplega 13% stúlkna og 6% drengja hafa orðið fyrir því að einhver hafi reynt að nauðga þeim.

Í niðurstöðunum kemur fram að kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart börnum og unglingum er ein alvarlegasta ógn við heilbrigði þeirra. Tíðni vanlíðunar og áhættuhegðunar var mun hærri hjá þeim sem höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.

Rannsóknin byggir á gögnum úr íslenska hluta HBSC-rannsóknarinnar á heilsu og lífskjörum skólabarna sem lögð var fyrir alla nemendur í 10. bekk í öllum skólum landsins að einum undanskildum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þrátt fyrir að kynferðisleg áreitni og ofbeldi gegn unglingum sé álíka algeng og í öðrum vestrænum löndum þá hafi kynferðislegt ofbeldi gagnvart unglingum aukist ef borið er saman við sambærilega rannsókn sem gerð var á Íslandi fyrir áratug.

Tekið af ruv.is: Kynferðisofbeldi gegn unglingum eykst