Félagsfræðingur dúxar úr meistaranámi

      Comments Off on Félagsfræðingur dúxar úr meistaranámi

Atli Hafþórsson dúxaði úr meistaranámi í Félags- og mannvísindadeild.

Við brautskráningu Háskóla Íslands síðastliðinn laugardag kom í ljós að félagsfræðingurinn Atli Hafþórsson var með hæstu meðaleinkunn, 9,25, af brautskráðum nemendum Félags- og mannvísindadeildar. Atli útskrifaðist úr nýju meistaranámi í aðferðafræði sem hóf göngu sína haustið 2015 og er hann jafnframt fyrsti nemandinn sem brautskráist úr meistaranámi í aðferðafræði. Mbl.is fjallaði um einstakan árangur Atla og tók við hann stutt viðtal.

Lokaritgerðin hans fjallar um áhrif skipstjóra á aflasæld á uppsjávarveiðum. Greind eru gögn um síldveiði frá árunum 1959 og 1962, loðnuveiðar 1978, og einnig makrílveiðar 2009. Atli sýnir fram á mikil áhrif skipstjóra á síldarárunum, og staðfestir þar fyrri rannsóknir. Áhrif skipstjóra mælast hins vegar mun minni þegar litið er til veiðanna 1978 og 2009. Að sama skapi hefur skipum fækkað mikið og skilvirkni flotans aukist verulega. Atli setur fram spurningar um samhengisáhrif við túlkun greininga af ólíkum tímabilum og veiðum. Þannig kunni áhrif skipstjóra nú að dyljast í skilvirknum flota sem telur mun færri skip en áður. Í rannsókninni er beitt nýstárlegri tölfræðiaðferð við greiningu á áhrifum skipstjóranna sem kallast slembijaðargreining, eða stochastic frontier analysis á ensku. Með þeirri aðferð gat Atli nánar greint skilvirkni skipa og um leið áhrif skipstjóra en áður hefur verið unnt. Í útdrætti meistararitgerðar Atla má finna nánari lýsingar.Einnig er ritgerðin í opnum aðgangi á Skemmunni.

Snemma á níunda áratugnum risu upp deilur meðal félagsvísindafólks um áhrif skipstjóra á aflasæld. Niðurstöður rannsókna fóru frá því að telja áhrifin engin, til þess að áhrifin væru mikil. Við rannsóknir á skipstjóraáhrifum kann þáttur samhengisáhrifa að hafa verið vanmetinn. Í þessari rannsókn er mæld skilvirkni skipa á uppsjávarveiðum á fjórum tímapunktum. Greining er gerð á síldveiðum 1959 og 1962, á loðnuveiðum 1978 og á makrílveiðum 2009. Þannig afmarkast rannsóknin af ramma uppsjávarveiða, en tekur um leið til veiða í ólíku samhengi. Í rannsókninni er stuðst við slembijaðargreiningu (e. Stochastic Frontier Analysis), tölfræðiaðferð sem ekki hefur verið notuð hérlendis áður í rannsóknum á þessu sviði. Beiting þessarar aðferðar veitir skýrari svör en áður við sumum af þeim álitamálum sem uppi hafa verið um áhrif skipstjóra á aflasæld. Niðurstaða rannsóknarinnar er skýr hvað það varðar að áhrif skipstjóra á aflasæld voru mikil á síldarárunum. Áhrifin mælast minni á loðnuveiðum í aðdraganda kvótasetningar og á frjálsum makrílveiðum árið 2009. Við túlkun á tölfræðilegum niðurstöðum um skipstjóraáhrif verður að taka sérstakt mið af samhengisáhrifum. Áhrif skipstjóra á aflasæld dyljast að óþekktu marki í samþættingu við tæknilega forspárþætti og í breyttri stöðu skipstjórans.

Félagið óskar Atla til hamingju með glæsilegan árangur!